Skip to main content

Flest okkar verja stórum hluta vökutíma í vinnunni. Það skiptir því miklu máli að starfsfólki líði vel í vinnunni, að það hafi tækifæri til að vinna að verkefnum við hæfi og sé hvatt áfram af stjórnendum og samstarfsfólki. Vellíðan starfsfólks er einnig lykilforsenda árangurs, stöðugleika og sjálfbærs vinnuumhverfis.

Rannsóknir sýna að starfsfólki sem líður vel í vinnunni upplifir minni streitu, meiri starfsánægju og eru minna frá vinnu vegna veikinda. Á hinn bóginn, ef starfsfólki líður illa í vinnunni, getur sú vanlíðan birst í aukinni þreytu, minnkandi áhuga sem getur leitt til veikinda og fjarvista frá vinnu. Því  er mikilvægt að fyrirtæki fylgist reglulega með líðan, starfsumhverfi og stjórnun og grípi til aðgerða ef það stefnir í óefni. Markvissar mælingar og virkt samtal eru þannig lykilverkfæri í að fyrirbyggja veikindafjarvsitir og byggja upp heilbrigðan vinnustað.

Ábyrgð atvinnurekenda

Talsverð umræða hefur verið um miklar veikindafjarvistir í opinbera geiranum undanfarnar vikur og misseri. Dæmi eru um sveitarfélög sem hafa birt veikindafjarvistir í kringum sjö og hálft til átta prósent og kostnað í kringum 6 milljarða á ári. Á bak við þessar tölur er fólk sem er að fást bæði við almenn veikindi og sjúkdóma. Rannsóknir sýna þó í auknum mæli að andleg líðan, sálfélagslegir vinnuþættir og gæði stjórnunar eru meðal áhrifaþátta bæði á skammtíma- og langtímaveikindi.

Fyrir atvinnurekendur skapar þetta bæði ábyrgð og tækifæri: að skilja hvernig starfsfólk upplifir vinnuumhverfið og bregðast við áður en áskoranir þróast yfir í langvarandi fjarvistir. Þar er öflug mannauðsstefna, studd af traustu mannauðs- og launakerfi, lykilforsenda. Slík kerfi gera vinnustöðum kleift að hafa heildstæða yfirsýn yfir stöðu mannauðs, tryggja faglegar ráðningar, rétt laun og skýrar starfslýsingar, auk þess að styðja við reglulega endurgjöf, þjálfun og starfsþróun.

Jafnframt skipta reglulegar mælingar á lykilmælikvörðum mannauðs miklu máli. Með því að fylgjast markvisst með þróun á veikindafjarvistum, starfsánægju, starfsmannaveltu, álagi og stjórnunarþáttum er hægt að greina áhættur snemma, meta áhrif aðgerða og styðja stjórnendur í ákvarðanatöku. Þannig verða gögn ekki aðeins skráning á fortíðinni heldur verkfæri til forvarna og umbóta.

Tökum púlsinn á fólkinu okkar

Reglubundnar starfsánægjukannanir (öðru nafni púlsmælingar) eru einföld og skilvirk leið til að taka púlsinn á starfsfólki. Með slíkum könnunum náum við fram upplýsingum um það sem vel er gert og hvað má betur fara á vinnustaðnum og getum greint niðurstöður niður á deildir og teymi. Niðurstöður púlsmælinga varpa ljósi á þætti í vinnuumhverfinu sem kunna að hafa neikvæð áhrif á starfsfólk, t.d. ójafnt álag, skortur á stuðningi stjórnenda, samskiptavandi o.s.frv. og geta því nýst til að koma í veg fyrir vanlíðan og jafnvel veikindafjarvistir.

Moodup getur breytt leiknum

Það eru til ótal dæmi um fyrirtæki sem nota Moodup til að mæla starfsánægju mánaðarlega. Moodup byggir á þeirri hugmyndafræði að mæla oftar og hafa fáar spurningar í hvert skipti. Flestir viðskiptavinir Moodup mæla starfsánægju mánaðarlega eða annan hvern mánuð með ca. 5 spurningum sem tekur starfsfólk aðeins 1-2 mínútur að svara. Um 120 fyrirtæki og stofnanir nýta nú Moodup í þeim tilgangi að hlusta á fólkið sitt.

Þessi fyrirtæki hafa rætt um hversu þýðingarmikið þetta tól er til að vita hvernig starfsfólki líður. Ef því líður illa í vinnunni þá sýna niðurstöður það umsvifalaust. Niðurstöðurnar eru nafnlausar og fólk upplifir sig öruggt að greina frá atriðum sem kunna að valda álagi eða vanlíðan. Hægt er að eiga í samskiptum í nafnleynd og hægt að leita leiða til að styðja starfsfólk í gegnum álagstíma og erfiðleika.

Vel hannaðar púlsmælingar gera atvinnurekendum þannig kleift að fylgjast kerfisbundið með andlegri vellíðan, gæðum stjórnunar, vinnuálagi, skýrleika hlutverka, sálrænu öryggi og almennri starfsánægju.

Hlustum á fólkið okkar

Með reglubundnum mælingum og aðgengilegu mælaborði sem mannauðsfólk og stjórnendur hafa aðgang að í rauntíma er komið verkfæri sem raunverulega hjálpar stjórnendum og mannauðsfólki að grípa inn í áður en í óefni fer. 

Látum okkur velferð starfsfólks okkar varða. Hlustum á fólkið okkar og öxlum ábyrgð á því starfsumhverfi sem við búum því.