Skip to main content

Almennir skilmálar CORUS ehf.

1. Viðskipti við CORUS ehf.

1.1. Gildissvið skilmála þessara

Þessir skilmálar gilda um öll viðskipti og samninga CORUS ehf., Borgartúni 37, 105 Reykjavík, kt. 510521-0640, (hér eftir „CORUS“ eða „félagið“) við viðskiptavini félagsins.

Skilmálar þessir, ásamt eftir atvikum sérskilmálum, þjónustusamningi og samningsviðaukum fyrir hvern viðskiptavin, fela að jafnaði í sér heildarsamning aðila um viðskipti þeirra. Stangist ákvæði skilmála þessara á við ákvæði sem finna má í sérskilmálum, vöru- eða þjónustusamningi eða samningsviðaukum skulu ákvæði þeirra síðarnefndu ganga framar þessum skilmálum.

Að öðru leyti teljast frávik frá þessum skilmálum ekki samþykkt af hálfu félagsins nema undirritað samþykki þess liggi fyrir.

Sá sem samþykkir skilmálana fyrir hönd viðskiptavinar staðfestir að viðkomandi hafi umboð til þess.

1.2. Samningur aðila

Samningur telst kominn á milli félagsins og viðskiptavinar þegar aðilar hafa skrifað undir þjónustusamning, viðskiptavinur samþykkt sérskilmála, samningsviðauka eða tilboð félagsins um þjónustu innan gildistíma slíks tilboðs, eða þegar viðskiptavinur byrjar að nýta þjónustu félagsins.

Sé ekki kveðið á um gildistíma samnings í samningi aðila skal hann gilda ótímabundið þar til honum er sagt upp, sbr. grein 1.3 í skilmálum þessum.

1.3. Uppsögn samnings

Sé ekki kveðið á um uppsagnarfrest í samningi á milli félagsins og viðskiptavinar skal uppsagnarfrestur vera þrír mánuðir og skal uppsögn taka gildi um mánaðarmót.

Félagið getur hvenær sem er, fyrirvara- og bótalaust, sagt upp samningi við viðskiptavin vegna brots hans á samningsskyldum nema annað leiði ótvírætt af skilmálum þessum, sérskilmálum, samningum eða lögum. Eigi félagið viðskipti við viðskiptavin á grundvelli fleiri samninga en eins leiða brot hans á einum samningi til þess að félagið getur sagt upp öllum samningum sínum við viðkomandi viðskiptavin.

1.4. Samningslok

Við samningslok, af hvaða ástæðu sem er, lokast aðgangur að hugbúnaði án tafar, nema um annað sé samið. Viðskiptavinur ber ábyrgð á að afrita öll gögn í sinni eigu, sem vistuð eru hjá félaginu, fyrir samnings-lok.

Önnur vinna sem fellur til vegna útleiðingar viðskiptavinar við lok samnings er gjaldfærð á viðskiptavin samkvæmt verðskrá félagsins.

2. Sala og notkun á hugbúnaði

Um sölu og nýtingu á hugbúnaði kunna að gilda sérstakir notendaskilmálar félagsins eða framleiðanda hugbúnaðarins. Að öðru leyti fer notkun hugbúnaðar eftir samningum aðila. Í sölu á hugbúnaði felst einungis réttur til notkunar á hugbúnaðinum en ekki framsal á eignarétti, nema um annað sé sérstaklega samið.

2.1. Notkun hugbúnaðar

Viðskiptavinur skuldbindur sig til að nota hugbúnað félagsins í samræmi við skilmála þessa og eftir atvikum samning aðila eða sérstaka skilmála og ábyrgist jafnframt að hann muni ekki með ásetningi eða gáleysi nota hugbúnað til að brjóta gegn lögum eða öðrum lögvörðum réttindum félagsins eða þriðja aðila.

Þá ábyrgist viðskiptavinur jafnframt að senda eða miðla ekki vísvitandi gögnum eða forritum er innihalda tölvuvírusa er valdið geta röskun eða villum í hugbúnaði eða öðru er kann að hafa skaðleg áhrif á hugbúnaðinn og eðlilega virkni hans.

Viðskiptavini er með öllu óheimilt að framselja, afrita, fjölfalda, umbreyta, bakþýða eða hluta sundur hugbúnað, nema lög heimili annað.

Viðskiptavinur skuldbindur sig til að fylgja leiðbeiningum félagsins, og eftir atvikum þriðju aðila, um notkun á hugbúnaði og sjá til þess að tengdur búnaður, þ.m.t. vélbúnaður, uppfylli gerðar kröfur, eftir því sem við á.

2.2. Hugbúnaður þriðja aðila

Hugbúnaður frá öðrum en félaginu er seldur á forsendum framleiðandans eða eiganda réttindanna. Yfirleitt er um að ræða sölu á óframseljanlegum, hugverkaréttarbundnum réttindum til afmarkaðrar notkunar þannig að eignarréttur til hugbúnaðarins er ekki seldur, heldur aðeins réttur til að nota hann, háð þeim takmörkunum og bundin þeim skilyrðum sem framleiðandi eða eigandi hugbúnaðarins setur. Hugbúnað má ekki selja, leigja, framselja eða afhenda öðrum.

2.3. Ábyrgð viðskiptavinar á hugbúnaðarleyfum

 Viðskiptavini er aðeins heimilt að nota þann fjölda hugbúnaðarleyfa, hvort sem um ræðir hugbúnað félagsins eða þriðja aðila, sbr. ákvæði 2.1. og 2.2, sem hann hefur keypt leyfi fyrir. Viðskiptavinur er ábyrgur fyrir því að óska eftir fjölgun leyfa, eftir því sem við á. 

3. Endurgjald og greiðsluskilmálar

3.1. Almennt

Gjöld fyrir þjónustu félagsins eru listaverð í gildandi verðskrám félagsins hverju sinni, sérverð eða önnur tilgreind verð í samningi. Öll verð eru tilgreind án virðisaukaskatts, nema annað sé tekið fram.

Staðgreiða skal fyrir þjónustu, nema samið sé sérstaklega um reikningsviðskipti. Í slíkum tilfellum sendir félagið viðskiptavini mánaðarlega reikning vegna sölu á þjónustu. Félaginu er heimilt að reikningsfæra samningsbundna þjónustu mánuð fram í tímann. Sú þjónusta sem greidd er eftir mældri notkun er almennt reikningsfærð í lok mánaðar eða byrjun næsta mánaðar, enda liggi fyrir allar nauðsynlegar upplýsingar um notkun.

Gjalddagi reiknings miðast við útgáfudag en almennt skal eindagi vera 20 dögum eftir gjalddaga. Falli reikningur eða aðrar samningsskuldbindingar í eindaga ber viðskiptavini að greiða dráttarvexti í samræmi við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.

Athugasemdir skulu gerðar við reikninga án tafar og eigi síðar en á eindaga þeirra. Teljast reikningar ella samþykktir af hálfu viðskiptavinar. Þjónustugjöld eru ekki endurgreidd.

3.2. Aukaverk

Aukaverk teljast öll verk sem ekki falla innan samnings aðila. Greiða skal fyrir öll aukaverk sem félagið vinnur í þágu viðskiptavinar að hans ósk samkvæmt verðskrá eða samþykktum viðskiptakjörum á milli aðila. Ef nauðsynlegt er skal félaginu vera heimilt að grípa til aðgerða til varnar tjóni fyrir viðskiptavin án samþykkis hans og skal farið með slíkar aðgerðir sem aukaverk.

Lágmarksgjald fyrir aukaverk eru 2 klst. á dagvinnutíma og 4 klst. utan dagvinnutíma, samkvæmt verðskrá. Dagvinnutími er skilgreindur sem 8-17 virka daga.

3.3. Breytingar á verðskrám

Félagið áskilur sér rétt til að breyta verðskrám sínum eftir þörfum hverju sinni. Félagið áskilur sér rétt til þess að breyta verði, þ.m.t. í samræmi við breytingar á vísitölu og/eða í samræmi við gengisþróun krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum vegna notendaleyfa sem félagið greiðir fyrir í erlendri mynt. Skulu slíkar verðbreytingar almennt tilkynntar viðskiptavini með 30 daga fyrirvara. Við óvenjulegar aðstæður svo sem við gengislækkun á skömmum tíma, er félaginu heimilt að tilkynna viðskiptavini um verðbreytingar með 3 daga fyrirvara.

4. Skyldur viðskiptavina

Viðskiptavinum ber að gera félaginu kleift að sinna þeim hluta þjónustunnar sem fer fram á vinnustað viðskiptavinar.

Viðskiptavinir bera jafnframt ábyrgð á að veita félaginu fullnægjandi upplýsingar svo félagið geti sinnt þjónustu sinni. Þá bera viðskiptavinir ábyrgð á þeim leiðbeiningum og fyrirskipunum sem þeir veita félaginu, sem og á réttmæti þeirra upplýsinga sem gefnar eru félaginu.

5. Ábyrgð og skaðabótaskylda

5.1. Ábyrgð á galla

Félagið ber ábyrgð á því að þjónusta sé í samræmi við samning aðila, að teknu tilliti til ábyrgðartakmarkana í skilmálum þessum.

Reikningur fyrir þjónustu gildir sem ábyrgðarskírteini og hefst ábyrgðartími þegar þjónustan er innt af hendi, ellegar við dagsetningu reiknings, hvort sem fyrr er.

Viðskiptavinur félagsins glatar rétti sínum til þess að bera fyrir sig galla ef hann tilkynnir ekki félaginu um gallann án ástæðulauss dráttar frá því að hann varð galla var eða mátti verða hans var og í hverju galli var fólginn.

Ef viðskiptavinur leggur ekki fram kvörtun innan árs frá þeim degi er hann veitti þjónustu viðtöku, getur hann ekki síðar borið gallann fyrir sig.

Ábyrgð á hugbúnaði sem er þróaður af félaginu, er háð því að notkun hugbúnaðar hafi verið í samræmi við kerfisskráarlýsingar félagsins, handbækur og aðrar leiðbeiningar um notkun. Það sama á við um hvers kyns þjónustu sem veitt er af félaginu.

Félagið ábyrgist ekki að hugbúnaður vinni villulaust, án reksturstruflana eða að allar villur hafi verið lagfærðar. Félagið ber framleiðandaábyrgð á hugbúnaði sem félagið hefur sjálft þróað. Í þeim tilvikum er félagið er endursöluaðili hugbúnaðar gilda þær ábyrgðartakmarkanir sem eigandi hugbúnaðar hefur sett, svo framarlega sem slíkar takmarkanir stangast ekki á við íslensk lög.

5.2. Undantekningar á ábyrgð

Öll þjónusta er veitt án skuldbindinga um viðbragðstíma. Félagið ábyrgist ekki þjónusta sé gallalaus, virki án reksturstruflana, að hugbúnaður starfi rétt eða að allar hugbúnaðarvillur sem og aðrar villur séu lagfærðar.

Viðskiptavinur getur ekki krafið félagið um ábyrgðarþjónustu vegna tjóns, atvika eða orsaka sem rekja má til:

  • utanaðkomandi áhrifa, sambands-leysis, rofs á fjarskiptum, þjónustu eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptanets, 
  • athafna eða athafnaleysis viðskiptavinar eða þriðja aðila á vegum viðskiptavinar, 
  • rangrar, eða slæmrar notkunar á þjónustu félagsins, 
  • tengds hugbúnað sem settur hefur verið upp af viðskiptavini eða öðrum þriðja aðila, 
  • virkni búnaðar, þ.m.t. hugbúnaðar, frá framleiðendum, 
  • notkunar hugbúnaðar eða gagna í stafrænu formi, svo og ef slík gögn glatast eða týnast, af hvaða ástæðum sem er, 
  • þess að leiðbeiningum framleiðanda búnaðar og/eða félagsins um hirðu, notkun, álag, íhluti eða viðhald er ekki fylgt, eða 
  • þess að bilun stafar af rangri tengingu við rafkerfi eða netkerfi, eða bilun má rekja til óhæfs umhverfis, s.s. vegna ryks, hitastigs eða rakastigs. 

Félagið ber ekki ábyrgð á gögnum og varðveislu þeirra, sem vistuð kunna að vera í hugbúnaði.

5.3. Takmarkanir á skaðabótaskyldu

Verði viðskiptavinur fyrir tjóni vegna þjónustu félagsins kann viðskiptavinur að eiga rétt til skaðabóta úr hendi félagsins.

Réttur viðskiptavinar til skaðabóta úr hendi félagsins skal þó takmarkast við beint tjón og bótaábyrgð félagsins nær ekki til óbeins eða afleidds tjóns, þ.m.t. rekstrartaps, tapaðra gagna sem leiða kann af notkun á hugbúnaði eða ómöguleika á notkun hugbúnaðar, missis hagnaðar eða viðskiptavildar eða vanefndar viðskiptavinar á samningi við þriðja aðila. Þá er félagið ekki bótaskylt vegna tjóns sem ekki verður rakið til ásetnings eða stórkostlegs gáleysis félagsins eða þess starfsfólks sem félagið ber ábyrgð á.

Skapist bótaskylda á hendur félaginu skal bótaábyrgð félagsins takmarkast við jafnvirði kr. 1.200.000, eða þriggja mánaða þjónustugjalds fyrir þjónustu sem orsakaði tjónið, hvort sem lægra er. Bótaþak skal miðast við samanlagða bótafjárhæð félagsins á grundvelli samnings aðila. Undir engum kringumstæðum getur heildarbótaábyrgð félagsins verið hærri en kr. 3.000.000.

6. Óviðráðanleg atvik

Geti félagið vegna óviðráðanlegra atvika ekki efnt skyldur sínar gagnvart viðskiptavin er félagið laust undan öllum skuldbindingum sínum um þann tíma sem óviðráðanleg atvik (e. force majeure) standa yfir og á viðskiptavinur ekki rétt til að beita vanefndaúrræðum gagnvart félaginu, þ.m.t. kröfum um endurgreiðslu, afslátt, skaðabætur, uppsögn eða riftun.

 Með óviðráðanlegum atvikum er átt við atburð eða aðstæður sem ekki eru á valdi félagsins enda sé þannig háttað um þau að félaginu hafi ekki verið unnt að yfirvinna þau með eðlilegum ráðum. Án takmörkunar um almennt gildi þess sem að framan greinir skulu atburðir og atvik m.a. taka til styrjalda, uppreisna, skemmdarverka, óeirða, farsótta, náttúruhamfara, aðgerða stjórnvalda svo sem á sviði gjaldeyris- og viðskiptamála, viðskiptabanna, hafnbanna, almennra samgönguhindrana, flutningsbanna, orkuskorts, hvers kyns netárása, óviðráðanlegra atvika í samskiptum við undirverktaka og birgja og hvers kyns ámóta atvika sem valda röskun á efndum félagsins, þ.m.t. ef birgjar eða þjónustuaðilar félagsins geta ekki uppfyllt skuldbindingar sínar gagnvart félaginu á grundvelli óviðráðanlegra atvika sem leiða til þess að félagið geti ekki efnt skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavin.

Komi til þess að óviðráðanleg atvik standi yfir í 45 daga samfellt eða lengur getur viðskiptavinur rift eða sagt upp samningi við félagið án þess að baka sér bótaskyldu.

7. Vanefndir og vanefndaúrræði

Félagið áskilur sér rétt til að hætta að veita og eftir atvikum loka á þjónustu til viðskiptavinar komi til vanefnda af hálfu viðskiptavinar.

Til viðbótar öðrum réttindum félagsins, er félaginu heimilt án undanfarandi tilkynningar til viðskiptavinar að:

  • synja viðskiptavini um þjónustu hafi reikningur ekki verið greiddur innan 30 daga frá eindaga, 
  • eyða gögnum viðskiptavinar, sem vistuð eru í hugbúnaði félagsins, hafi reikningur ekki verið greiddur innan 150 daga frá eindaga. 

Báðir aðilar geta rift samningi án fyrirvara, ef um er að ræða verulega vanefnd af hálfu hins aðilans í samræmi við almennar reglur.

Enn fremur er félaginu heimilt að beita öllum vanefndaúrræðum, þ.m.t. riftun, ef:

  • viðskiptavinur greiðir ekki reikning félagsins innan 30 daga eftir eindaga, 
  • viðskiptavinur uppfyllir ekki samningsbundna skyldu sína við félagið innan 30 daga frá dagsetningu skriflegrar áskorunar frá félaginu um að efna skyldu sína, 
  • viðskiptavinur notar hugbúnað með öðrum hætti en notkunarskilmálar eða aðrar útgefnar leiðbeiningar um meðferð hans kveða á um, 
  • viðskiptavinur notar hugbúnað umfram það sem viðskiptavinur hefur greitt fyrir, þ.m.t. í tengslum við fjölda notenda, 
  • viðskiptavini er veitt heimild til greiðslustöðvunar, hann fær heimild til að leita nauðasamninga eða verður gjaldþrota, eða 

Á meðal þeirra vanefndaúrræða sem félaginu er heimilt að beita hafi viðskiptavinur vanefnt skyldur sínar gagnvart félaginu, þ.m.t. með framangreindum hætti, er að:

  • rifta eða segja upp samningi að hluta eða í heild, 
  • taka hugbúnað í sína vörslu eða gera hann ónothæfan, og 
  • innheimta allar gjaldfallnar og ógjaldfallnar greiðslur samkvæmt viðkomandi samningi. 

Tilkynning um riftun skal vera skrifleg og send með sannanlegum hætti.

Verði samningi rift af hálfu félagsins ber viðskiptavini að greiða áfallin gjöld samkvæmt samningi aðila auk alls kostnaðar félagsins. Enn fremur skal viðskiptavinur halda félaginu skaðlausu af öllum útgjöldum og tekjumissi, sem félagið kann að verða fyrir vegna vanefnda viðskiptavinar á samningi.

8. Upplýsingaöryggi og trúnaðarskyldur

Aðilar skulu virða sem trúnaðarmál allar þær upplýsingar sem þeir kunna að öðlast vegna framkvæmdar samnings aðila, þ.á m. um efni samningsins, hugbúnaðarkerfi viðskiptavinar, tengdan hugbúnað, viðskiptamenn, viðskiptasambönd, rekstur, starfsemi, fjármál og viðskiptahætti gagnaðila. Trúnaðarskylda skal haldast eftir að samningi er lokið.

Að því marki sem félagið tekur að sér hýsingu á hugbúnaði og gögnum viðskiptavinar, fer slík hýsing fram í vottuðu umhverfi samkvæmt ISO 27001:2022 staðlinum.

Viðskiptavinur skal þegar í stað tilkynna félaginu um öll öryggisrof á aðgangi hugbúnaðar sem hann kann að verða var við, s.s. innbrotstilraunum, tölvuvírusum, o.þ.h. sem kann að valda truflunum á veittri þjónustu.

9. Persónuvernd

Félagið leggur áherslu á að öll vinnsla persónuupplýsinga sé í samræmi við gildandi persónuverndarlög. Félagið kemur fram sem ábyrgðaraðili í skilningi persónuverndarlaga hvað varðar vinnslu persónuupplýsinga tengiliða sem koma fram fyrir hönd fyrirtækja og annarra lögaðila sem eiga í viðskiptum við félagið. Um vinnslu félagsins á slíkum upplýsingum vísast til persónuverndarstefnu félagsins sem finna má á vefsíðu CORUS.

Komi til þess að félagið vinni persónuupplýsingar fyrir hönd viðskiptavinar, s.s. í tengslum við þá upplýsingatækniþjónustu sem félagið veitir viðskiptavini, kemur viðskiptavinur fram sem ábyrgðaraðili slíkrar vinnslu í skilningi persónuverndarlaga og félagið sem vinnsluaðili. Undir slíkum kringumstæðum gilda skilmálar félagsins um vinnslu persónuupplýsinga, sem aðgengilegir eru á vefsíðu CORUS, skilmálar um vinnslu persónuupplýsinga félagsins.

10. Hugverkaréttur

Skilmálar þessir skulu ekki hafa áhrif á hugverkarétt að hugbúnaði sem félagið selur viðskiptavini eða veitir viðskiptavini aðgang að. Um rétt viðskiptavinar til notkunar á slíkum réttindum gilda sérstakir skilmálar félagsins eða skilmálar viðeigandi rétthafa.

Í þeim tilvikum er þjónusta félagsins við viðskiptavin felur í sér aðgang að efni, s.s. handbókum o.s.frv., sem félagið hefur þróað eða er rétthafi að, skal allur hugverkaréttur tilheyra félaginu. Þar undir fellur m.a. hvers konar höfundaréttur, vörumerkjaréttur, hönnunarréttur, viðskipta- og atvinnuleyndarmál, sérþekking (e. know-how) sem og einkaleyfi. Á það jafnframt við um efni sem félagið hefur unnið á grundvelli samnings aðila nema um annað sé sérstaklega samið. Ekkert framsal á hugverkaréttindum á sér því stað milli aðila. Á grundvelli samnings aðila skal viðskiptavinur hins vegar fá óframseljanlegt leyfi til að nota viðkomandi efni á gildistíma samnings aðila, eftir því sem við á.

Komi til þess að aðilar þróa eða útbúa hugverkaverndað efni í samvinnu skulu báðir aðilar eignast rétt til þess efnis og hafa aðilar hvor fyrir sig heimild til að ráðstafa því, að því marki sem slík ráðstöfun brýtur ekki gegn öðrum réttindum gagnaðila.

Allur hugverkaréttur að efni sem viðskiptavinur hefur unnið, hannað og þróað án aðkomu félagsins skal tilheyra viðskiptavini og ekkert framsal á slíku efni á sér stað nema um annað sé samið. Veiti viðskiptavinur félaginu aðgang að slíku efni í tengslum við þjónustuna veitir viðskiptavinur félaginu þar með óframseljanlegt leyfi til að nota efnið á samningstíma og skal viðskiptavinur halda félaginu skaðlausu af hvers konar kröfum þriðja aðila er byggja á því að notkun félagsins á efninu brjóti gegn betri rétti viðkomandi.

Skapist óvissa um hugverkaréttindi félagsins sem félagið hefur veitt viðskiptavini leyfi til að nota á grundvelli samnings aðila, s.s. vegna kröfu þriðja aðila sem telur efni félagsins brjóta gegn betri rétti viðkomandi, skal félagið ákveða hvort félagið breyti efninu, útvegi viðskiptavini sambærilegt efni eða hvort félagið semji við þriðja aðila um notkun á efninu á meðan ágreiningur stendur yfir.

Félaginu er ekki heimilt að vísa til viðskiptavinar á vefsíðu sinni eða birta vörumerki hans þar, sem og í öðru kynningarefni á vegum félagsins, nema með samþykki viðskiptavinar. Viðskiptavinur skal jafnframt leita samþykkis félagsins fyrir slíkri notkun á nafni og vörumerkjum í eigu félagsins.

11. Vefsíða

Allar upplýsingar á vefsíðu félagsins eru birtar með fyrirvara um villur, hvort sem um er að ræða almennan texta, vöru- og/eða þjónustulýsingar, verð eða myndir.

Félagið ber ekki ábyrgð á tjóni sem kann að verða vegna notkunar/misnotkunar þriðja aðila á vefsíðum félagsins.

12. Annað

12.1. Samningssamband viðskiptavinar við þriðja aðila

Í tengslum við endursölu félagsins á þjónustu og leyfum til viðskiptavinar kann að myndast beint samningssamband milli viðkomandi þriðja aðila og viðskiptavinar. Í slíkum tilvikum gengst viðskiptavinur þá undir skilmála viðkomandi þriðja aðila eða ber ábyrgð á að ganga frá sérstökum samningi við viðkomandi sem er félaginu óviðkomandi.

12.2. Framsal réttinda og undirverktakar

Félaginu er heimilt að framselja, að hluta eða öllu leyti, réttindi sín og skyldur, samkvæmt skilmálum þessum, auk annarra samninga félagsins við viðkomandi viðskiptavin, til tengdra félaga, sem lúta sama eignarhaldi, með tilkynningu til viðskiptavinar. Þá skal félaginu heimilt að framselja réttindi sín og skyldur að hluta eða öllu leyti á grundvelli þessara skilmála til þriðja aðila, sé ekki mælt fyrir um annað í samningi aðila. Viðskiptavinum er óheimilt að framselja réttindi sín og skyldur án samþykkis félagsins.

Félaginu er heimilt að útvista verkefnum í tengslum við samning aðila, að hluta eða öllu leyti, til þriðja aðila, að því marki sem heimilt er samkvæmt lögum og eftir atvikum skilmálum félagsins um vinnslu persónuupplýsinga.

12.3. Lög og varnarþing

Samningssamband félagsins við viðskiptavini sína fellur undir íslensk lög.

Komi upp ágreiningur milli aðila sem ekki tekst að sætta skal leysa úr máli með gerðarmeðferð í samræmi við reglugerð Gerðardóms Viðskiptaráðs Íslands sem í gildi er þegar gerðarmeðferð hefst og skal reglugerðin fyrir gerðardóminn gilda um málsmeðferð. Ákvæði þetta ásamt reglugerðinni telst gerðarsamningur milli aðila.

Ef einhver ákvæði skilmála þessara eða samnings aðila eru í andstöðu við ófrávíkjanleg lög og reglur sem um þá gilda eða ef slík ákvæði eru dæmd ógild af gerðardómi eða dómstóli sem hefur lögsögu yfir aðilum, skulu slík samningsákvæði umorðuð á þann veg að sem minnst röskun verði á upphaflegum tilgangi aðilanna innan ramma viðkomandi laga og dómsúrlausna, og skulu ákvæði skilmálanna og/eða samnings aðila að öðru leyti halda fullu gildi.

12.4. Breytingar á skilmálum

Félagið áskilur sér rétt til að breyta skilmálum þessum og munu breytingarnar verða tilkynntar með a.m.k. 30 daga fyrirvara á vefsíðu félagsins.